21.2.2008 | 19:13
Sól, sól skín á mig
Þá er góða veðrið komið aftur til leiks, þurfti að draga fyrir gluggann á skrifstofunni minni í morgun til á sjá á skjáinn og fékk náttúrulega að heyra það að sem Íslendingur þyldi ég ekki mikla sól
og í hádeginu sat ég úti í sólinni með nokkrum vinnufélögum og borðaði panini samloku.
Vinnufélögunum finnst Ísland soldið skrýtið land og ég sem einn af 300 þúsund Íslendingum finnst þeim ég vera það líka (örugglega). Eftir að hafa rætt aðeins um leik Lyon og Manchester United sem fór fram í gær var ég spurð hvað mörg fótboltalið væru í íslensku "lígunni". Ég svaraði eins og satt var og er að ég hefði ekki hugmynd um það. Þeir höfðu nú svörin á reiðum höndum: "örugglega ekki fleiri en 5!" og kímdu. En þeir vissu þó að íslendingar ættu þó ekta keppnisvöll þar sem að franska landsliðið hafi nú komið þar við um árið. Svo var ég spurð að því hvort að handbolti væri nú ekki vinsælasta íþróttagreinin því það hafði nú ekki farið framhjá sumum að við töpuðum nú ansi stórt fyrir frökkkunum á Evró um daginn. Mér fannst ég þurfa nú að auka virðingu og vitneskju þeirra á íslenskum íþróttarmönnum og fræddi þá náttúrulega um tilveru Eiðs Smára sem var hjá Chelsea og síðan seldur til Barcelóna og gerði það bara gott. "Nei" sagði Morgan vinur minn "það er ekki Íslendingur". Þeir voru alveg gáttaðir "Gudjonsen er hann Íslendingur!", og urði enn meira hissa þegar ég sagði þeim að pabbi hans hafi reyndar verið líka mikill fótboltakappi og meira að segja spilað með Bordeaux. Eftir það var ekki rætt meira um Ísland og Íslendinga og haldið sig frekar við umræðuefni á þeirra þekkingarsviði, þar gerðu þeir sig þó ekki að fíflum.
Annars eru þeir sosum ágætir greyið kallarnir, eru bara dátlir tölvunördar.
Krakkarnir voru hjá ömmu í dag. Remí hefur verið að horfa á sjónvarpið hjá henni ömmu sinni og séð slatta af auglýsingum, því um leið og hann kom heim dró hann upp pappísnepil sem hann hafði hripað eitthvað á í flýti og rauk síðan á netið til að kíkja á síðu þar sem hægt var að kaupa íþrótta-hjólaskauta-skó: "mamma þeir kosta nú bara 89 evrur, þú hlýtur nú að eiga svo mikla peninga".
Lea er sem betur fer ekki í þessu efnislega þessa dagana. Hún brýtur heilann um heimaverkefnið í myndlist sem á að vera kúbísk Nature morte eða eins og það heitir á íslensku: kyrralífsmynd. Mér finnst það alveg frábært hvað hún er áhugasöm í myndlistinni enda fær hún rosaflottar einkunnir fyrir allt sem hún gerir þar. Ef það væri nú bara það sama í hinum greinunum.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Athugasemdir
Sæl systir góð
Hvað ert þú að kvarta undan sólarleysi, hér er búið að vera hörku vetur og varla sést til sólar í langan tíma en svo kom hún blessuð í gær og er farin að skina inn um alla gluggana hjá mér svo eitthvað hefur hún hækkað á lofti blessunin. Það er gaman að sjá þessa myndir af Reni í fótbolta þetta er eins og á sumardeigi á Ísl. þetta er ekki svona á æfingum hjá Arnóri undanfarið. Stundum skil ég ekki hvernig íslendingum dettur í hug að æfa fótbolta utandyra yfir veturinn svo ég skil að sumu leiti vinnufélaga þín að þeim finnist skrýtin þessi fótboltaiðkun á Ísl. Kveðja Dagbjört
Dagbjört (IP-tala skráð) 22.2.2008 kl. 12:23
Kæra systir,
Þú getur huggað þér við það að grasið sem þú sérð á vellinum er nú bara gervigras og svo er Remí nú langerma innan undir stutterma.
En hins vegar get ég ekki neitað því að hér var 19 stig í dag og sól. En veðrið er það besta við að búa hér. Stundum langar mig þó að vera í brjáluðum byl á Íslandi.
kveðja
Björg
Björg Sigurðardóttir, 22.2.2008 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.