Sunnudagur til sælu

Úff, það er langt síðan að það hefur verið gott veður á sunnudegi hér í Montpellier og höfum við haft langan, blautan og frekar kaldan vetur. Já, já ég veit ég á ekki að vera að kvarta en það er nú bara svona. Þannig að í dag fórum við á ströndina til að njóta blíðunnar, þrátt fyrir vindinm þá fannst okkur þetta fínt og set ég inn nokkrar myndir til að sýna ykkur. Reyndar sést á einhverjum að ég er blaut á rassinum, ég pissaði ekkert á mig heldur sast á rakan sandinn.

Hér eru möndlutréin farin að blómstra sínum smáu fallegu bleikhvítum blómum og fylla loftið léttum vorilmi. Páskaliljurnar mínar eru búnar í ár og blessaðir túlípanarnir eru svo ræfilslegir að þeir blómstra örugglega ekkert.

Helstu fréttir eru að Remí meiddi sig um síðustu helgi og sko ekki á íþróttaæfingu heldur rétt áður en hún byrjaði. Snéri upp á stórutánna og tognaði. Allur fóturinn bólgnaði upp og blánaði, bólgan er farin en marið ekki enn, er þó örlítið farið að grænka. Hann átti erfitt með gang því hann gat ekki stigið í fótinn fyrstu dagana, svo hann fékk hæli hjá ömmu sem vorkenndi honum mikið og hjúkraði og lét vel að honum fyrri hluta vikunnar.

Svo í apríl er hann að fara á siglinganámskeið með bekknum sínum, við erum þó ekkert yfir okkur hrifin, sko við foreldrarnir. Kennarinn hans Remís er rosa hrifin af seglskútum og vill endilega fara með þau á siglinganámskeið sem tekur einhverja 3-4 daga, þau fara með nesti og rútu til palavas og koma náttúrulega heim á hverju kvöldi. Þetta er bara dáldið dýrt og forledrarnir voru bara ekkert spurðir áður en hún ákvað þetta og sendir bréf um að það kosti 80 evrur eða 12 þús kall á núvirði. Skólin tekur þátt í skólaferðum fyrir annan og svo 5 bekk og þá er farið í vikuferðir en þar sem frúin kennir bara þriðja bekk kemst hún aldrei í svona ferðir svo hún skipuleggur þær sjálf og foreldrarnir borga.

Svo eigum við að staðfesta að barnið okkar geti synt 25 metra í djúpu vatni! en sundkennslan hér í Frakklandi er svo rosalega mikil að þau fá 10 kennslustundir í 1 bekk (1 sinni í viku) og svo aðrar 10 í öðrum bekk og svo ekki söguna meir fyrr en þau eru orðin tólf ára. Það er náttúrulega ekki sundlaug í Grabels svo þau fara í rútu í sund og stundum ruglast rútubílstjórinn á skóla svo oftast fá krakkarnir ekki nema 7-8 kennslustundir.

Jæja, eins og þið heyrið erum við ekkert rosalega ánægð með kennarann hans Remí. Allir kennarar í þessum skóla senda umsókn og einkunnir með börnum heim á 6 vikna fresti í þar til gerðu einkunnahefti. Hún nennir ekki svoleiðis standi heldur sendir krakkana heim með möppu með prófunum sem hún hefur leiðrétt án allrar umsagnar. Kennslustundum var fækkað í ár, fá því krakkarir tveggja vikna frí á sex vikna fresti og mæta ekki í skólann á laugardagsmorgnum, í staðinn eiga kennarar að skipulegga stuðningskennslu, bæði reglulega tíma fyrir þá sem þurfa á því að halda og svo aukatíma fyrir þá sem hafa ekki skilið einhverja ákveðna kannslustund. Remí kom með miða heim um að hann þyrfti á aukatíma að halda í einhverri vikunnim ekki tiltekinn dagur, en hann hefur aldrei fengið þennan aukatíma.

Jæja, en það er farið að vora hér í krísulandi, þótt við höfum ekki hrapað eins hratt og Ísland í krísunni, þá er hún hérna samt og spárnar verða svartari og svartari. Maður krossar fingur fyrir vinnunni sinni og reynir að drýgja tekjurnar eins og maður getur.   

Við fengum þær brjálæðisgóðu fréttir frá CAF sem er stofnun sem sér um að greiða barna- og leigubætur að við skulduðum þeim meira en 4 þús evrur fyrir ofgreiddar húsaleigubætur á tímabilinu 1 júlí 2007 - 31 des 2008, raun og veru nær allar þær bætur sem við höfum fengið. Reyndar heldur stofnunin áfram að greiða okkur sömu upphæð ( þrátt fyrir að staða okkar hafi ekkert breyst) og hún hefur alltaf gert mínus 66 evrur á mánuði í afborganir á skuldinni (það þýðir að við séum að borga til baka það sem við skuldum næstu 62 mánuðina) þannig að við erum enn í plús.  Við skyljum ekkert í þessum furðulega reikningi og William fór og hitti ráðgjafa hjá stofnunni sem skildi þetta ekki sjálfur og sagði okkur að skrifa bréf og barma okkur og þá þyrftum örugglega ekki að borga þetta til baka.

 Skrýtið sýstemið það !

DSC09919DSC09921DSC09926DSC09928DSC09933DSC09939DSC09944DSC09940DSC09947

 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæl systir,

fínar myndir úr góða veðrinu hjá ykkur í Frans.  Hérna var aftur á mót fyrsta leiðinda veður vetrarins í dag.

Vonandi verður Remi fljótur að ná sér í tánni svo hann geti farið að æfa.  Hvernig hefur Lea það?  Eru þið gömlu ekkert að verða hallærisleg fyrir hana?

Hafðu ekki áhyggjur af kreppunni, ég er búinn að komast að því að það borgar sig ekki.  Miklu betra að njóta góða veðursins ef maður hefur tíma, spá í skýin og sleppa fréttum.

Vonandi sjáumst við fljótlega, bestu kveðjur þinn bróðir.

Magnús Sigurðsson, 8.3.2009 kl. 22:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband