Fyrirgefiði andleysið

Jæja, ég far að lesa að sumum finnst ég ekki blogga nógu oft. Það er bara það versta að ég er svo andlaus þessa dagana að það hálfa væri nóg og svo er kanski ekkert svo rosalega mikið að gerast hjá mér þessa dagana, alla vega ekki þess hátta viðburðir að tilefni sé til að blogga um þá.

Ég er búin að vera eins og undin tuska alla vikuna og varla náð að sofa heila nótt fyrr en nóttina sem leið. Ég segi að þetta tilheyri aldrinum og sérstaklega síðan að eiginmaðurinn fór að finna hvít (nei alls ekki grá) hár á höfðinu á mér.

 Nú er vetrarfríi barnanna ða ljúka. Við William bölvum þessum tveimur vikum í sand og ösku á hverju ári. Reyndar eru þetta tvær vikur á sex vikna fresti hérna. Þetta er hundleiðinlegt fyrir vinnandi fólk og setur alla rútínu úr skorðum og úr þessu verður bara óþarfa álag og maður verður bara þreyttur og pirraður fyrir vikið. Það er nú ekki hægt að láta þessi grey hanga aðgerðarlaus heima allan daginn svo að það þarf að skipuleggja, bjóða vinum þeirra í heimsókn, keyra með þau til ömmu og út og suður vera svo líka í vinnunni sinni, þar sem maður situr oft með samviskubit yfir að geta ekki boðið börnunum upp á eitthvað betra.

Remí er himinlifandi að fara aftur í skólann, Lea ennþá ánægðari, þótt hún sé engin framúrskarandi námsmey, en henni hefur alltaf fundist þessi frí leiðinleg. Það er nú einu sinni þannig að skólinn er þeirra félagsvettvangur og krakkar fá ekkert að valsa hér um í frjálsræði.

Ég var að hugsa um það um daginn að ef við værum enn heima á Íslandi hefðu við þurft að pæla í því hvort Lea ætti að fermast eða hvort hún vildi fermast. Ekkert er henni eins fjarri og það núna enda er enginn að spá í þessu hér. Svo til engin trúarbragðarfræðsla fer fram í skólunum hér, allt á að vera "laískt". Það er rétt svo að drepið sé niður á trúarbrögð í sögutímum.  Reyndar er Lea ekki komin á það stig að hún sé farin að læra heimspeki, en þar held ég a það sé nánar farið út í trúarbrögð.

Mér finnst þetta ágætt fyrrkomulag þó mér finnist að heimspekin mætti koma fyrr inn í námsefnið og ég er ekki sammála Sarko að það eigi að halda minningarathafnir og lesa bréf stríðsbarna eða að tíu ára börn eigi að "taka" að sér sálir þeirra gyðingabarna sem sem létust í fangabúðum. Þetta á að vera sjálfsögð fræðsla innan ákveðinnar námsgreinar sem heitir mannkynssaga.


Sól, sól skín á mig

Þá er góða veðrið komið aftur til leiks, þurfti að draga fyrir gluggann á skrifstofunni minni í morgun til á sjá á skjáinn og fékk náttúrulega að heyra það að sem Íslendingur þyldi ég ekki mikla sól

og í hádeginu sat ég úti í sólinni með nokkrum vinnufélögum og borðaði panini samloku.

Vinnufélögunum finnst Ísland soldið skrýtið land og ég sem einn af 300 þúsund Íslendingum finnst þeim ég  vera það líka (örugglega). Eftir að hafa rætt aðeins um leik Lyon og Manchester United sem fór fram í gær var ég spurð hvað mörg fótboltalið væru í íslensku "lígunni". Ég svaraði eins og satt var og er að ég hefði ekki hugmynd um það. Þeir höfðu nú svörin á reiðum höndum: "örugglega ekki fleiri en 5!" og kímdu. En þeir vissu þó að íslendingar ættu þó ekta keppnisvöll þar sem að franska landsliðið hafi nú komið þar við um árið. Svo var ég spurð að því hvort að handbolti væri nú ekki vinsælasta íþróttagreinin því það hafði nú ekki farið framhjá sumum að við töpuðum nú ansi stórt fyrir frökkkunum á Evró um daginn. Mér fannst ég þurfa nú að auka virðingu og vitneskju þeirra á íslenskum íþróttarmönnum og fræddi þá náttúrulega um tilveru Eiðs Smára sem var hjá Chelsea og síðan seldur til Barcelóna og gerði það bara gott. "Nei" sagði Morgan vinur minn "það er ekki Íslendingur". Þeir voru alveg gáttaðir "Gudjonsen er hann Íslendingur!", og urði enn meira hissa þegar ég sagði þeim að pabbi hans hafi reyndar verið líka mikill fótboltakappi og meira að segja spilað með Bordeaux. Eftir það var ekki rætt meira um Ísland og Íslendinga og haldið sig frekar við umræðuefni á þeirra þekkingarsviði, þar gerðu þeir sig þó ekki að fíflum.

 Annars eru þeir sosum ágætir greyið kallarnir, eru bara dátlir tölvunördar.

Krakkarnir voru hjá ömmu í dag. Remí hefur verið að horfa á sjónvarpið hjá henni ömmu sinni og séð slatta af auglýsingum, því um leið og hann kom heim dró hann upp pappísnepil sem hann hafði hripað eitthvað á í flýti og rauk síðan á netið til að kíkja á síðu þar sem hægt var að kaupa íþrótta-hjólaskauta-skó: "mamma þeir kosta nú bara 89 evrur, þú hlýtur nú að eiga svo mikla peninga".

Lea er sem betur fer ekki í þessu efnislega þessa dagana. Hún brýtur heilann um heimaverkefnið í myndlist sem á að vera kúbísk Nature morte eða eins og það heitir á íslensku: kyrralífsmynd. Mér finnst það alveg frábært hvað hún er áhugasöm í myndlistinni enda fær hún rosaflottar einkunnir fyrir allt sem hún gerir þar. Ef það væri nú bara það sama í hinum greinunum.

 


Grámyglulegt veður og lítt fleira

Jæja, nú eru krakkarnir komnir í tveggja vikna vetrarfrí, og vita náttúrulega ekkert hvað þau eiga að gera af sér svo þau slást og rífast. Lea búin að lesa bókina sem hún keypti sér. Hún var reyndar búin að því á fyrsta degi frísins svo ég sagði það væri nú gott þá gæti hún byrjað á bókinni sem hún á að lesa fyrir skólann í fríinu, Morðið í Austurlandahraðlestinni, en hún á erfitt með að koma sér að því. En það er nú ekki sama hvort maður á eða má.

Hér eru frí á sex vikna fresti og þá er eins og allt hálf lamist. Allt í einu kemst maður í vinnuna á tíu mínútum, skrifstofurnar eru hálf tómar, sérstaklega á þeim vinnustöðum þar sem barnafólk vinnur. Erfitt getur verið á ná í ýmsar stofnanir og þar eftir götunum. Maður situr og bíður eftir að fríinu sé lokið svo maður geti haldið áfram að vinna.

Annars er svo sem ekkert sérstakt að frétta. Ó jú, kanski, það er búið að vera sólarlaust í heila þrjá daga, þungskýjað og nokkrir dropar hafa fallið. Ég er orðin svo óvön þessu að það liggur við að ég sé fallin í þunglyndi. Og svo er svo kalt, 14-15 stiga hiti og engin sól til að ylja manni. Þetta hlýtur nú að lagast á morgun.

Remí tók þátt í enn einu fótboltamótinu á laugardaginn var, spilaði fimm leiki með tveimur liðum. Hann hefur nú tekið þó nokkrum framförum í boltanum svo þeir vita ekki hvort hann eigi að vera með þeim bestu eða þeim næst bestu (kanski er ég nú smá að monta mig núna). En annars fer þetta nú mest eftir dagsformi drengsins, hvort hann hafi borðað nóg af kjötbollum en þó ekki of mikið af kjötbollum.

Læt hér fylgja myndir af kappanum á vellinumm hann er númer 9:

DSC05262

DSC05266

DSC05268

DSC05270


Valentínusardagurinn í gær

Í gær var Valentínusardagur, ekki það þó að við hjónin höldum sérstaklega upp á hann og erum við því kanski eins og einhver viðundur ef dæma má almenningsumræðuna.

Flestir kallarnir í vinnunni eru einhleypir en höfðu þó áhuga á að vita á hvaða veitingastað ætti að fara um kvöldið. Ég sagði þeim að ég ætlaði nú bara að hita upp afganga og steikja smá nautakjöt sem ég hafði keypt í súpermarkaðnum. Þeim fannst það nú ekki mjög rómantískt. Svo snerust hádegisumræðurnar aðallega um hvað Sarko gæfi nú Cörlu í Valentínusargjöf. Eins hálsmen og hann gaf Ceciliu í fyrra?

Þegar ég kom heim var Remí í essinu sínu. Búin að leggja stofuna undir sig með alls konar byggingum svo að kattargreyið vissi ekki hvar það gæti tyllt sér niður. Aumingja kisa. William var líka búin að pipra fyrir henni uppáhalds staðinn, stóru leirskálina upp í borðstofuskáp. Og ekki þorir hún fyrir sitt litla líf inn í herbergin því þá fær hún skammir. Erfitt þetta kattarlíf.

Lea var dottin niður í bókarlestur inn í herbergi. Kom þó fram með 5 mínútna millibili til að spegla sig fram í forstofu. Þegar maður er þrettán ára getur nú margt breyst í útliti manns á fimm mínútum og betra að hafa kontról á því.

Ég fékk þó tvær Valentínusargjafir frá honum syni mínum. Hann kom heim með frábærar misseris einkunnir og mjög góða umsögn frá kennurunum sínum. Hann var náttúrulega afar stoltur og við foreldrarnir líka. Og þó hann hafi nú gleymt að játa vinkonu sinni Lauru ást sína, þá dró hann nú upp eina handa mömmu sinni. Þó svo að hún hafi verið dagsett 27/12 2007 er hún enn í fullu gildi.

Eftir að hafa borðað upphituðu afgangana og nautakjötið, var svo sest fyrir framan imbann og horft á þá yndilegu mynd Chocolat.

Læt fylgja hér með ástarjátninguna á mynd:

DSC05260


Sunnudagur

Eftir sunndagsskokkið og markaðsferðina, skruppum við krakkarnir í dýragarðinn og heimsóttum nýja Amasóníuhúsið og sáum til dæmis pínulitla sæta froska í skærum og fallegum litum en í raun eru þeir stór hættulegir. Ég náði einni mynd af krökkunum en svo var batteríið búið í vélinni, týpískt.

DSC05192

Eg varð vitni af skondnu atviki. 45 ara kona skammadi sig svo hryllilega fyrir sjötuga modur sina, sagðist vera farin og ekki thekkja hana lengur. Eg vona bara að börnin mín verði komin af gelgjuskeiðinu thegar eg verð orðin 70. Serstaklega theirra vegna.

 

 

 

 


Halló halló

Þegar ég vaknaði klukkan sex í morgun til að kíkka á snúðinn minn sem hefur verið að berjast við inflúensuna undanfarna daga, fékk ég þessa frábæru hugmynd : AÐ BLOGGA!

Nú segja allir: "nei mikið ertu frumleg, Björg".

En um hvað ég mun svo blogga er ekki alveg komið á hreint, líklegt að það verði bara um lífið og tilveruna.

Reyndar er þessi hugmynd ekki alveg ný af nálinni, eitt af áramótaheitunum var að halda dagbók þar sem mér finnst tíminn æða áfram og maður staldrar ekki við ýmiss smáatriði sem reynast í raun stóratriði, og þau renna bara saman við allt hitt.

Bloggið leyfir líka að deila þessum "smáatriðum" með fjarstöddum vinum og ættingjum sem maður hittir nú alltof sjaldan og er alltof latur að skrifa tölvupósta.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband